Innskráning í Karellen

Að eiga afmæli er stór stund í lífi barns hvert ár. Afmælisbörn undirbúa afmælið sitt með starfsfólki og vinum með því að útbúa kórónu sem þau mála og skreyta og fá að bera á afmælisdaginn sinn. Afmælisbarnið er í aðalhlutverki þann dag sem það á afmæli og fær ýmis hlutverk með starfsfólki, t.d. fær að velja lag/lög, verkefni og fær einnig að ákveða leik í skemmtistund. Barnið fær einnig að nota afmælisdisk og glas í matartímum og fær þannig að vera í sérstöðu þennan dag. Notaleg samverustund er höfð þegar afmælissöngur er sunginn og öll börn á kjarnanum fá að knúsa afmælisbarnið ef þau óska þess.

Ekki er þörf á að foreldrar komi með veitingar eða slíkt þennan dag þar sem það er óþarfi og börnin kalla ekki eftir því að fyrra bragði. Við gerum undantekningu ef foreldrar óska eftir því að koma með ávexti til að bjóða börnunum á kjarnanum upp á en við viljum ekki að komið sé með neitt annað t.d. popp eða sælgæti. Í þessu samhengi þá er ekki mælt með að börn undir 5 ára aldri borði popp og getum við ekki tekið ábyrgð á því. Það getur einnig valdið óþarfa samkeppni og pressu þegar misjafnt er hvað foreldrar hafa í hug að koma með.

© 2016 - 2024 Karellen