Velkomin í skólann

Markmið okkar í starfi er að allir hafi jafnan rétt til að njóta sín á eigin forsendum. Því er áherslan í Fjölvísistefnunni á einstaklingsmiðað nám þar sem hverju barni er mætt þannig að það fái tækifæri til að vinna út frá sínum styrkleikum og tekið er tillit til fjölbreytileikans. Þegar allir fá að vera þeir sjálfir kemur fram út náttúruleg gleði sem er sjálfsprottinn og innileg. Til að mæta öllum er unnið með fjölbreytt verkefnaval og opinn efnivið. Skýrt og einfalt skipulag er nýtt til að allir viti að hverju er gengið og hvernig deginum er háttað. Starfið er svo metið með fjölbreyttum aðferðum þar sem lagt er upp með altækri gæðastjórnun þannig að allir sem að skólanum koma; börn, foreldrar, kennarar, stjórnendur og sveitafélagið, taka þátt í að meta starfið.

Leikskólinn Sjáland var opnaður í kjölfar útboðs á vegum Garðabæjar um byggingu og rekstur leikskóla í Sjálandshverfinu. Leikskólinn er því sjálfstætt starfandi skóli og er rekinn af Sjálandi ehf. sem er að hluta til í eigu Ídu Jensdóttur leikskólastjóra. Það hefur verið mikill kraftur frá opnun í starfi skólans og mikið hugsjónarstarf unnið. Markmiðið frá stofnun skólans hefur verið ,,Skóli í þróun“ og mikill sveigjanleiki í að þróa faglega starfið og stefnu hans. Í því ljósi hefur skólinn sett fram nýja fagstefnu sem byggir á fjölgreindarkenningu Howard Gardner og nefnist hún Fjölvísistefnan. Hún var samþykkt af hálfu Garðabæjar vorið 2009 og innleidd í skólastarfið haustið 2009. Að auki hefur skólinn lagt mikla áherslu á umhverfisvernd og umhverfismenntun. Í desember 2008 fékk skólinn alþjóðlegu umhverfisviðurkenninguna Grænfánann, fyrstur leikskóla í Garðabæ. Viðurkenningin hefur verið mikil hvatning til skólans um þann árangur sem stefnt var að og náðst hefur þ.e. að umhverfismennt sé í hávegum höfð í öllu starfinu

© 2016 - 2019 Karellen