„Við upphaf leikskólagöngunnar er lagður hornsteinn að samstarfi foreldra og leikskóla. Þar gefst foreldrum tækifæri til að kynnast starfsháttum, hugmyndafræði og námskrá leikskólans og starfsfólkleikskólans fær upplýsingar um barnið, aðstæður þess, reynslu og áhugasvið. Á þessum gagnkvæmu upplýsingum byggjast fyrstu skref barnsins í leikskólanum“.
(Aðalnámskrá,2011, bls. 48)


Markmið aðlögunar er að barn upplifi skólagöngu á sem jákvæðastan hátt. Börn eru jafn ólík og þau eru mörg og því þarf að taka tillit til einstaklingsþarfa þeirra. Aðlögunin er því einstaklingsbundin og vinna foreldrar og kennarar að henni saman.
Þegar foreldrar fá staðfestingu um vistun fyrir barn sitt í skólanum er þeim úthlutaður viðtalstími þar sem farið er yfir ýmis hagnýt atriði sem og fyllt út vistunarsamningur og spurningalisti. Þátttaka foreldra getur verið misjöfn í aðlögun barnsins og er það rætt sérstaklega í þessu fyrsta viðtali hvort um meiri þátttöku verði að ræða en áætlunin leggur upp með endar er áhersla á einstaklingsmiðaða aðlögun.
Þegar barnið mætir fyrsta daginn hittir það kjarnastjóra kjarnans sem kynnir barn og foreldra fyrir aðlögunarkennara barnsins. Sá kennari fylgir barninu í aðlögun og miðlar upplýsingum um starf kjarnans til foreldra. Einnig er barnið komið með merkt hólf í fataklefa, sæti við matarborð og á plássi. Þegar barnið hefur fundið sig öruggt í leikskólanum fer það að kynnast öðrum kennurum kjarnans, því allir kennarar kjarnans eru kennarar barnsins.
Til að barnið upplifi stöðugleika á meðan á aðlögun stendur er mælt með því að annað hvort foreldrið sjái um aðlögun ef kostur er á. Einnig getur það reynst barninu vel að hafa með sér hlut að heiman sem veitir því öryggi til dæmis teppi eða bangsa.
Í aðlögunarferlinu er stuðst við eftirfarandi áætlun en ávalt horft á stöðu barnsins og metið hvað hentar því best:
  • Dagur 1 – Foreldrar/foreldri og barn mæta saman klukkan 9:00 og eru til 10:00. Foreldrar/foreldri eru með barninu allan tímann.
  • Dagur 2 – Foreldrar/foreldri og barn mæta saman klukkan 9:00 og eru fram yfir hádegismat. Foreldrar/foreldri eru með barninu allan tímann.
  • Dagur 3 – Foreldrar/foreldri mæta með barninu og kveðja barnið við kjarnann. Ef vel gengur er barnið í skólanum fram yfir hádegismat.
  • Dagur 4 – Barn mætir á sínum vistunartíma og er fram yfir hvíld. Barnið er sótt þegar það vaknar.
  • Dagur 5 – Barnið mætir á sínum vistunartíma og er allan daginn. Aðlögun lokið.


© 2016 - 2020 Karellen