Leikskólinn Sjáland vinnur eftir eigin hugmyndafræði sem nefnist Fjölvísistefna. Hún byggir á Fjölgreindakenningu Howard Gardner. Howard Gardner setti fram kenningu sína um fjölgreindirnar árið 1983 en þá kom út bók hans „Frames of mind“. Gardner hafði þá verið að velta fyrir sér hugmyndinni um “margar gerðir mannshugans”. Grundvöllur kenninga Gardner er byggður á virðingu fyrir margbreytileika manna, fjölbreyttum námsaðferðum, margir möguleikar á að meta námsárangur og allar þær leiðir sem maðurinn getur farið til að setja mark sitt á veröldina . Gardner hefur ekki trú á að eingöngu sé ein ákveðin leið sem hægt er að fara til að nýta kenningu hans í skólum (Thomas Armstrong, 2001, bls. 7-8).
Það er okkar hugsjóna að gefa hverju barni tækifæri til að þroskast á eigin forsendum og byggjum þannig upp einstakling með jákvæða og sterka sjálfsmynd. Howard Gardner sagði þegar hann var að skrifa sína fyrstu bók um kenninguna ,, ..að sjö mismunandi greindir gæfu svigrúm til kennslu á sjö mismunandi vegu, frekar en á einn hátt“. Seinna uppgötvaði Garnder áttundu greindina.
Með þetta í huga er áherslan í Fjölvísistefnunni á fjölbreytt verkefnaval í skólastarfinu því þannig náum við að efla ólíka einstaklinga og styrkleika þeirra.
Fjölgreindir

Eins og áður hefur verið nefnt eru allar greindirnar mikilvægar og margbreytileikinn felst í því að hver og einn er með mismunandi styrkleika í hverri greind. Með því að efla og styrkja allar greindirnar átta í starfi skólans er tekið tillit til fjölbreytileika barnanna sem skilar sér í sterkari sjálfsmynd þeirra. Hægt er að vinna á ýmsan hátt með hverja greind og tvinna þær saman. Teljum við vera samhljóm á milli greinda Gardners og grunnþátta menntunar (bls. 14) sem getið er um í aðalnámskrá leikskóla. Í fjölvísistefnunni er þó talað um tvær grunngreindir sem mikilvægt er að tileinka sér. Þær eru Sjálfsþekkingargreind og Samfélags-og félagshæfnigreind.


Þegar barn kemur í leikskólann býr það að félagslegum arfi sem kemur frá fjölskyldu þess og nánasta umhverfi. Í leikskólanum ýtum við undir sjálfstæði og sjálfstraust barna. Með því öðlast börnin trú á eigin getu og er það grunnur að áframhaldandi námi og velferð í lífinu. Til að barnið öðlist jákvæða sjálfsmynd og gott sjálfstraust þarf það að læra að bera virðingu fyrir sjálfu sér sem og umhverfi sínu. Virðing þarf að vera gagnkvæm og er grundvöllur fyrir jákvæðri sjálfsmynd og samskiptum barnsins við umhverfið. Því þurfa kennarar að sýna börnunum og skoðunum þeirra virðingu, hlusta á þau og taka tillit til skoðana þeirra og viðhorfa. Að barnið finni sig öruggt og að á það sé hlustað hefur áhrif á nám barnsins. Eru það þeir þættir sem nám barnsins byggir á.

Sjálfsþekkingargreind: að þekkja sjálfan sig og geta nýtt sér þá þekkingu í lífi og starfi. Þessi greind lýsir sér í góðri sjálfsmynd og að hafa þekkingu á styrkleikum sínum jafnt og veikleikum. Vera meðvitaður um eigið hugarástand, tilfinningar sínar, fyriráætlanir ásamt sjálfsskilningi, bera virðingu fyrir sjálfum sér og hafa hæfni til sjálfsagnar. Börn sem hafa góða sjálfsþekkingargreind hafa gjarnan þörf fyrir að fá að vera ein að leik (Thomas Armstrong, 2001, bls. 14-15).
Samfélags – félagshæfnigreind: samskipti er stór þáttur í okkar lífi og grundvöllur fyrir félagsþroska barnsins. En í þessari greind felst til dæmis hæfileiki til að skilja og greina skap annarra, tilfinningar og geta sýnt samlíðan og samúð. Umhverfið sem barnið elst upp í hefur áhrif á félagsþroskann sem og einstaklingsþættir þess þá er átt við þau gildi og lögmál sem ríkja í samfélaginu sem og uppeldi, skapgerð, sjálfsmynd, sveigjanleika og réttlætiskennd barnsins. Það að bera virðingu fyrir barninu og kenna því að bera virðingu fyrir öðrum eflir félagshæfni þeirra (Thomas Armstrong, 2001, bls. 14-15).
Málgreind: kemur fram í frumbernsku þegar börn fara að hlusta eftir hljóðum og orðum í umhverfi sínu sem það fer síðan að greina og nýta sér sem tjáningarmáta. Því þarf ávalt að hafa í huga að málörvun sé rauður þráður í öllu starfi skóla. Tala við börn, setja orð á athafnir, syngja með þeim, fara í orðaleiki, lesa bækur o.fl. allt með það að markmiði að efla orðaforða þeirra og málskilning. Eins þarf að hafa í huga að útskýra ný orð og hugtök fyrir börn þegar færi gefst eins og þegar verið er að lesa, segja þeim sögur eða læra ný orð. Máltökuskeiði flestra barna lýkur um sex ára aldur en málið þróast alla ævi (Thomas Armstrong, 2001, bls. 14-15).
Rök- og stærðfræðigreind: snýr ekki eingöngu að stærðfræði og hugtökum tengdum henni heldur einnig að rökhugsun. Að þjálfa rökhugsun barna og fá þau til að velta hlutunum fyrir sér þjálfar þennan þátt og þar með heimspekilega hugsun. Spyrjum börn spurninga sem leiða af sér heilabrot, lausnaleit og efla gagnrýna hugsun. Hugtök stærðfræðinnar, talning og talnaleikir eiga vel heima í leikskólastarfinu og nýta þau tækifæri sem gefast til að efla þann þátt telja það sem er í umhverfinu, mæla og margt fleira(Thomas Armstrong, 2001, bls. 14-15).
Rýmisgreind: til að gera sér grein fyrir umhverfi sínu þarf að hafa góða rýmisgreind. Geta séð fyrir sér hluti, teiknað, hannað og notað hugarkort til að skipuleggja og skrá. Það getur hjálpað börnum að muna og læra hluti að setja þá upp á myndrænan hátt til dæmis tengja myndir við söngtexta eða hafa skipulag dagsins á myndrænu formi. Mynsturgerð og sjá mynstur í umhverfinu tengist einnig góðri rýmisgreind (Thomas Armstrong, 2001, bls. 14-15).
Líkams- og hreyfigreind: að hreyfa sig og efla hreyfifærni sem og líkamsvitund er okkur öllum mikilvægt. Í leikskólastarfinu þurfum við að hafa í huga að efla þarf bæði fín- og grófhreyfingar barnanna sem og efla þeirra líkamsvitund og leita fjölbreyttra leiða til þess. Leiklist er listgrein sem krefst bæði góðrar hreyfifærni og líkamsvitundar, að lita, þræða hluti uppá spotta eflir fínhreyfingar og hopp, hlaup o.þ.h. efla grófhreyfingar barnanna. Einnig notum við líkamann til að tjá okkur bæði tilfinningar okkar, leggja áherslu á orð okkar og gera börn það sérstaklega þar sem þau hafa jafnvel ekki orð til að tjá sig (Thomas Armstrong, 2001, bls. 14-15).
Tónlistargreind: Allt í kringum okkur er tónlist, taktur, hljómfall og einhverskonar umhverfishljóð. Það er mjög gaman að vinna í og með tónlist með börnum. Þau eru fljót að læra texta, tileinka sér laglínu og ófeimin við að syngja og spila. En við þurfum alltaf að gæta þess að markmið sé með notkun tónlistarinnar hún sé ekki eitt af bakgrunnshljóðunum heldur er verið að greina tónlist þ.e. takt, hljómfall eða jafnvel tegund tónlistar (Thomas Armstrong, 2001, bls. 14-15).
Umhverfisgreind: að bera umhyggju fyrir umhverfinu. Hafa þekkingu á náttúrunni með því að þekkja og geta flokkað tegundir úr jurta- og dýraríkinu. Þessi greind felur einnig í sér næmi fyrir fyrir öðrum fyrirbærum í náttúrunni eins og skýjafari og fjöllum. Hjá þeim sem alast upp í þéttbýli getur þessi greind einnig snúið að dauðum hlutum í umhverfinu eins og bílum og flugvélum(Thomas Armstrong, 2001, bls. 14-15).
Nám barnsins
Ef barn á að geta þroskast, upplifað og lært þarf það að hafa þá eiginleika að skynja umhverfið sitt. Það gerir barnið með skilningarvitum, skynfærunum sín, sem eru meðfæddir eiginleikar.

Skynfæri barnsins eru augu, eyru, nef, munnur og húð. Það er börnum eðlilegt að snerta, horfa og hlusta á veröldina í kringum sig en til þess þurfa þau örvun og tækifæri til að auka þroska sinn bæði andlega og líkamlega (Elfa Lilja Gísladóttir, 2009, bls. 131).
Sjónskyn er talið mikilvægasta skynfærið með því geta börnin greint liti, dýpt, stærð og hreyfingu hluta í umhverfinu. Sjónskyn getur verið mjög persónulegt því við veljum úr það sem við viljum sjá og skiptir máli fyrir okkur byggt á líðan okkar, þroska, reynslu og áhugasviði.
Heyrnarskyn gerir okkur kleift að greina skilaboð sem koma langt að. Við heyrum ekki eingöngu það sem fer fram nálægt okkur heldur einnig það sem gerist í töluverðri fjarlægð frá okkur. Heyrnarskynið auðveldar okkur að kynnast umhverfi okkar og eiga samskipti við annað fólk. En hlustun er ekki eina leið barnsins til að kanna hljóð því það gerist einnig í gegnum snertingu, hreyfingu og sjón.
Snertiskyn verður virkt strax við fæðingu en í húðinni eru snertinemar sem svara mismunandi áreitni. Í gegnum húðina og við snertingu kemst barnið í samband við umheiminn. það kynnist bæði sjálfu sér og umhverfinu í gegnum þá upplifun að finna og snerta. Snerting er mikilvæg fyrir tilfinningarþroska barnsins og grundvallarþáttur í samskiptum og í þróun líkamsvitundar. Við snertingu fara boð til heilans í gegnum taugakerfið og hefur það áhrif á önnur skynfæri (Elfa Lilja Gísladóttir, 2009,bls. 131-138).
Lyktarskyn er í rauninni nátengt bragðskyni og nátengt við heilann. Það er talið að hægt sé að allt að 10.000 mismunandi tegundir lyktar. Talið er að börn hafi mjög djúpstætt lyktarskyn og eigi auðvelt með að greina lykt. Erfitt getur verið að skilgreina hvað lykt er og hvað hefur áhrif á lyktarskynið, einna helst er hægt að líkja lykt við sameind sem hefur ertandi áhrif á lyktarskynið.
Bragðskyn er talið vera frumstæðasta skilningarvitið en er nátengt lyktarskyni því við finnum ekki bragð af mat ef til dæmis nefið er stíflað. Bragðlaukar sem eru á tungunni eru samsettir úr mörgum bragðfrumum sem eru misnæmar fyrir sætu, súru, beisku og söltu bragði þannig að segja má að bragðskyn mannsins sé frekar takmarkað.
Með hvatningu, örvun og fjölbreyttu starfi læra börnin að nýta sína styrkleika. Börn hafa fjölbreytta styrkleika og eru því misjafnlega stödd í hverri greind, sem er mikilvægt að virða. Í Fjölvísistefnunni er börnum kennt á mismunandi hátt og allir fá tækifæri til að læra á sínum eigin forsendum sem hentar þeim best. Að gefa hverju barni tækifæri til að læra á fjölbreyttan hátt ýtir undir sjálfstraust þeirra og jákvæðari sjálfsmynd.

© 2016 - 2019 Karellen