news

Jól í Sjálandi

21. 12. 2020

Á aðventunni ríkir mikil eftirvænting og tilhlökkun til jólanna. Í leikskólanum Sjálandi gerum við okkur glaðan dag en finnst það jafnframt mikilvægt að eiga notalegar samverustundir og njóta augnabliksins með vinum okkar.

Þetta árið er aðventan með óhefðbundnu sniði en við aðlöguðum jólaviðburðina að þeim takmörkunum sem við búum við þessa dagana.

Í stað þess að fara í ævintýraferð í Heiðmörk til að sækja jólatré fyrir salinn vorum við svo heppin að það komu til okkar jólasveinar sem færðu okkur hið fallegasta jólatré. Jólasveinarnir sungu með börnunum í garðinum og kíktu inn til að heilsa uppá yngstu börnin. Þeir voru líka búnir að panta mandarínur á netinu sem voru komnar inn á kjarnana og biðu eftir börnunum þegar þau komu inn.

Leikskólinn Sjáland er í vinasamstarfi við hjúkrunarheimilið Ísafold og áttum við með þeim fallega jólastund á aðventunni. Eins og annað þurftum við að aðlaga þá heimsókn en börnin fóru með jólaskraut sem þau voru búin að búa til og skreyttu jólatréð sem stendur í garðinum við Ísafold. Þar sungu börnin einnig fyrir heimilisfólkið sem kom út á svalir og var í gluggum og að launum fengu börnin mandarínur. Við vonum svo að við getum hitt vini okkar í Ísafold meira á næsta ári.

Jólaballið er ómissandi þáttur í aðdraganda jólanna og er það alltaf jafn gaman að sjá börnin prúðbúin og stolt af fínu fötunum. Enda er þetta stór stund þar sem þau alla jafna mæta í skólafötum.

Síðasti jólaviðburðurinn hjá okkur er jólastund í salnum okkar það kom til okkar jólasveinn með jólafjör að því loknu fengum við okkur piparkökur sem börnin hafa skreytt sjálf og kakó.

Síðastliðnir mánuðir hafa verið mjög svo óvanalegir í þjóðfélaginu og höfum við þurft að endurskipuleggja leikskólastarfið við hverjar breytingar á reglugerð. Þetta gerist gjarnan með stuttum fyrirvara. Mér er þakklæti ofarlega í huga þegar ég lít til baka. Börnin hafa tekið þessu með ró enda með einstaklega góða aðlögunarhæfni og foreldrar hafa staðið með okkur allan tímann og aðlagað sig að breyttum aðstæðum. Síðast en ekki síst er það starfsfólkið í Sjálandi sem er búið að standa vaktina allan þennan tíma með jákvæðni, lausnamiðaða hugsun og samstilltum huga.

Við óskum ykkur öllum gleðilegra jóla og njótið hátíðanna kæru vinir

Jólakveðjur frá öllum í leikskólanum Sjálandi

© 2016 - 2021 Karellen